Guðrún Anna Jónsdóttir

Sálfræðingur

Sátt og stefna

Acceptance and commitment therapy (ACT) snýst í raun um sátt og stefnu, það er að segja annars vegar að öðlast sátt um óbreytanlega hluti og hins vegar að móta sér stefnu í lífinu og vinna markvisst að henni. Markmið meðferðarinnar er því að aðstoða fólk við að lifa innihaldsríku lífi en minnka áhrif þeirra neikvæðu hugsana og tilfinninga sem oft fylgja slíku lífi. Leiðin að þessu markmiði er tvíþætt. Annars vegar er unnið í því að breyta sambandinu við erfiðar hugsanir og tilfinningar þannig að þær hafi minni áhrif á daglegt líf. Hins vegar unnið í því að móta stefnu með því að varpa ljósi á það sem raunverulega skiptir einstaklinginn máli, en slík lífsgildi eru að sjálfsögðu einstaklingsbundin.

Myndbandið hér til hliðar kallast “Farþegar í strætisvagni” og lýsir inntaki þessa meðferðarúrræðis vel. Vagnstjórinn (einstaklingurinn), stýrir vagninum (lífi sínu) en er oft með mjög óþægilega og freka farþega (hugsanir og tilfinningar) sem sækjast líka eftir því að stýra vagninum. Freistandi er að stoppa vagninn og reyna að henda þeim út en það er yfirleitt hægara sagt en gert. Oft er hægt að róa farþegana tímabundið með því að leyfa þeim að ráða ferðinni en vagnstjórinn kemst þá seint leiðar sinnar. Besta ráðið fyrir vagnstjórann gæti því verið að stýra vagninum í þá stefnu sem hann velur sjálfur og bjóða háværum farþegunum með í það ferðalag.